<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Fyrri tónleikar Létta búnir og kerlingarnar tvær á mínum vegum bara sáttar. Önnur þeirra aldrei fílað Megas en er nú orðin fan. Fattaði allt í einu hvað Magnús karlinn er gott skáld. Hrifnar af kvennarabbinu og Möggu Stínu, fannst miðbikið syfjulegt og of þjóðlegt og hátíðlegt en þær lifðu það af, enda sjálfar kórkonur í fullri virkni og sönggyðjur í hjarta sínu. Mér leið sjálfri vel eftir tónleikana, stolt af okkur öllum og hlakka til að syngja í kvöld og í Berlín á laugardaginn. Við verðum bara flottar þó við verðum Möggu Stínu lausar en fáum í staðinn með okkur eðalpiltinn Maríus MögguPálmason og hann er sko flottur og syngur eins og engill.
Ég aftur á móti er svoldið óskipulögð, á eftir að pakka fyrir þessar fjóra Berlínardaga, kann ekki að eiga vorföt fyrir stað þar sem er 14-20 stiga hiti í apríl og veit ekki til að ég líkist nokkurri kvikmyndastjörnu fyrr eða síðar sem hefur átt eins kjól og ég ætla að vera í á árshátíðinni (sá eini sem ég kemst í, útbelgd eins og ég er þessa dagana). Svo ég verð bara gamalt, útbrunnið starlet eða einu sinni vonabí stjarna að annarra vali.
Var að vinna til rúmlega 10 í gær, get bara ekki farið í frí og skilið eftir fullt pósthólf fyrir leikskólabörnin að vinna úr. Það verður fróðlegt að vita hvernig þeim gengur á föstudaginn án mín og Vignis og Andrea í hönnuninni. Sjuddirarirei...
Þarf núna að skella mér í sturtu, versla í matinn, skella í nokkrar vélar, pakka, finna passana, elda fyrir Sprundina og viðhengin, gera mig klára fyrir tónleika, stilla á upptökur langt fram í tímann, láta mömmu og Stellu frænku fá miðana á tónleikana í kvöld, gera mig ótrúlega sæta með öllum nýju möskurunum þremur, kannski ryksuga af því þrifakonan mín var veik í gær, skipta á rúmum og koma mér í Berlínargírinn...ich min ein berlinerinde...!!!


Er Rakelítan mín ekki mesta krútt ever...




Og svona var um að litast á pallinum þann 9. apríl...

mánudagur, apríl 21, 2008

Ég er þreytt og pirruð og útbelgd og ómöguleg. Held að gleðipillurnar virki ekki nema sem útblásturstöflur og ég er sko ekki alveg að fíla það. Er hætt að komast í fötin mín, mér er hálf illt í mallanum sem er útblásinn, þ.e. ég er með belg...shitttt....

sunnudagur, apríl 13, 2008

Enn önnur helgin næstum því á enda. Fór á fimmtudaginn í heimsókn á leikskólann hennar Rakelítu. Hún sýndi mér stolt leikskólann sinn. Bara krútt þessi litla stúlka mín.
Og á föstudaginn átti ég að vera í hönnunardeildinni í vinnunni. Shit,hvað ég er ekki að fíla það eða nenna því. Vil bara fá að vera í mínu djobbi. Hefði átt að sækja um á Fréttablaðinu en nú er það of seint. Ætti kannski að sækja um hjá 24 stundum, en er ekki alveg að fíla vinnutímann frá 11-19.30 alla daga. Kannski ætti ég bara að hætta að vinna og bara tjilla hér heima og gera ekki neitt, bara rápa í búðir og dekra við sjálfa mig. Hlýt að vera í kvíðakasti eða eitthvað.
Í gær fór ég svo og hitti Önnu og Gunnhildi. Fórum út að borða á Fiskmarkaðinn. Bara næst og skemmtilegt kvöld með tveimur frábærum konum.
Og nú sit ég hér og reyni að hafa mig í það að hanna lógó eða gera reikninga fyrir Siggu.
Ætlaði að tjá mig um ýmislegt sem liggur mér á hjarta en man ekkert hvað það var. Rúskan kemur frá Akureyri upp úr þrjú. Ætti trúlega bara að skella mér í sturtu og þvo af mér slenið og koma mér í einhvern gír...

mánudagur, apríl 07, 2008

Heilsufar mitt í gær var svo sannarlega ekki upp á marga fiska. Jafnvægisskynið verulega slæmt og ég mæli ekki með því drekka fleiri en tvo cosmopolitan á einu kvöldi. Allt laugardagskvöldið fremur skýjað en veit bara það var ógislega gaman á þessu samskiptaskralli.
Og svo að íslensku máli. Ágætis grein í mogganum á laugardaginn um það hvernig málið virðist vera að þróast í undarlegar áttir. Vinn t.d. með einum sem er með sé-sýki á hátu stigi: "Ef á sé ekki kominn...ef ég sé ekki heima". Og svar var nefnd þessi fróma setning: "Það var rekið manninn"!!!! Svipuð setningamyndun væri þá kannski: "Það var lesið bókina...Það var þvegið þvottinn.
Og í miðri umræðunni heima í gær tilkynnir Rúskan mér að hún þurfi að fara heim til Alexar, vinkonu sinnar af því hún hafi fengið lánað hjá henni til að borga leigubíl heim, og setningin var svona: "Ég þarf að skulda Alexi". Málið er að öll börnin mín sögnina skulda á undarlegan hátt: "Getur þú skuldað með 5 þús" og meina þá hvort ég geti lánað þeim. Ég er yfirleitt ekki tilbúin til að skulda þeim eitthvað sem þau skulda mér. Og ef ég skulda þeim segja þau: "Þú þarft að skulda mér....skil þetta ekki alveg. Kannski er þessi kynslóð bara alin upp við það að það sé algjörlega í lagi að skulda út um hvippinn og hvappinn en þau þurfi aldrei að borga skuldirnar til baka. Veit það ekki en afskaplega skrítið er þetta samt...nú ætla ég að fá mér eitthvað í svanganóruna...

laugardagur, apríl 05, 2008

Er algjörlega að fíla Létturnar núna. Getur verið að gleðipillurnar séu að gera eitthvað gagn. Ætla allavega að prófa að vera á þeim næsta árið og sjá svo til hvort ég þarf á þeim að halda lengur en það. Og svo keypti ég eitthvað sem heitir ProLocical, meiri pillur til að éta og þær á að borða fyrir svefninn því þær virka víst best þegar maður sefur. Ég svaf eins og engill í nótt, vaknaði ekkert til að pissa og þegar ég pissaði morgunpissið í morgun hélt ég að ég ætlaði bara aldrei að hætta. Sonurinn horfði á móður sína eftir fyrstu 5 mínúturnar af pisseríi með undrunarsvip og varð að taka sér pásu í tannburstuninni. Vá, mamma hvað getur þú eiginlega pissað lengi. Fallegi, litli hnakkinn minn...
Á morgun verður heljarinnar skrall með núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Samskipta. Vignir búinn að vera að undirbúa þetta í einhverja mánuði. Ætlum að borða saman hér á morgun, þ.e. mín ætlar að elda kjúllann hennar Lonníar...dásamlega góður og auðveldur. Elska að búa til svoleiðis mat...auðvelt og gott.
En sem sagt engar Rúskusögur í dag...bara að drulllla sér í svefn og sofa vært til morguns...er þaki bara???

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Ég vissi það þegar Rúskan mín var á fyrsta ári að ég þyrfti einhvern tímann að hafa fyrir henni. Ótrúlega skemmtileg og fjörug alveg frá fyrstu tíð, hafði fullkomna stjórn á líkamanum, snör í hreyfingum og söngelsk með afbrigðum, hélt lagi löngu áður en hún var talandi. Það er til af henni myndband þar sem hún syngur Dansi, dansi dúkkan mín þar sem maður skilur ekki stakt orð sem hún segir en lagið alveg á hreinu, hún ræskir sig í miðri laglínu og heldur svo bara áfram þar sem frá var horfið. Alltaf með sínar föstu skoðanir á hlutunum og alltaf vitað hvað hún vill. Og ég vissi að þegar hún yrði unglingur þyrfti að róa undir hennar litla rassi og dansa eftir hennar höfði.
Fyrir um mánuði var daman á leið á árshátíð Kvennó sem haldin var á Selfossi. Hún ætlaði að taka rútu frá Kvennó kl. 21.00. Rétt um sjö vorum við Jánsinn á leið í matarboð hjá tengdó og erum rétt að renna þar í hlað þegar Rúskan hringir. "Ég þarf að komast í Smáralind til að kaupa gerfiaugnahár og svo vantar mig pening. "Bíddu, ertu að fatta það fyrst núna að þú þurftir þessi gerviaugnahár". Já, sko ég var búin svo seint í klippingu". "Nei, heyrðu nú mig þú varst komin heim kl. fimm". "Já, ég fattaði bara ekki hvað klukkan var orðin".
Jánsinn er afskaplega duglegur að skutla henni bæjarhlutanna á milli svo nú fannst mér vera komið að mér að keyra hana (langaði reyndar voðalega lítið í þetta matarboð og var eiginlega fegin að fá þarna góða afsökun). Svo ég keyrði úr Breiðholtinu í Hlégerðið sótti stelpuna og skutlaði henni í Smáralindina. Það var byrjað að snjóa og færð ekkert sérlega góð. Hún ætlaði að hitta vinkonu sína í Smáralindinni. Ég sagði henni að hún gæti ekki verið nema í mesta lagi hálftíma í þessari verslunarferð, klukkan að verða hálf átta og svona. Jú, hún var svo sem ekkert lengi en þá segir hún mér að ég þurfi að skutla henni til annarrar vinkonu sinnar sem ætli að mála sig og hvort ég nenni nokkuð að skutla smáralindarvinkonunni heim til sín af því hún hafi "gleymt" kjólnum sínum heima. Og vinkonan býr í Grafarvoginum langleiðina upp á Korpúlfstaði. Ok, ég skutla Rúskunni fyrst í austurbæ Kópavogs í makeupið og svo vinkonunni í Grafarvoginn í þæfingsfærð og það tekur góðar 20 mín og klukkan að vera átta, klukkutími í rútuna í miðbænum. Á leiðinni úr Grafarvoginum hringi ég í dótturina og spyr hana hvort ég eigi ekki að sækja hana um hálfníu og skutla henni í rútuna en nei, ég þarf þess ekki því vinkonan úr Grafarvoginum ætli að sækja sig. Ok, múmmsan bara nokkuð sátt við að þurfa ekki að keyra meira, stoppa í sjoppu til að fá sér eitthvað í svanginn (matarboðið löngu fyrir bí). Varla búin að taka fyrsta bitann af hamborgaranum þegar Rúskan hringir og segir að trúlega sé betra að ég keyri hana "ef ég nenni" því vinkonan úr Grafarvoginum sé enn að mála sig og klukkan að verða hálfníu. Og mammsan segir já, en Rúskan segist ekki verða tilbúin fyrr en eftir 10 mínútur. Ok, er eftir 10 mínútur hjá makeupvinkonunni í austurbænum, en Rúskan ekki alveg tilbúin en alveg á leiðinni. Loksins þegar hún kemur vantar klukkuna 10 mín. í níu og það er nokkuð ljóst að það tekur um 10 mín. að keyra niðrí Kvennó. Á leiðinni þangað er reglulega hringt í vinkonuna úr Grafarvoginu því hún er nefnilega með miðana á ballið. Rennum fyrir framan Kvennó kl. 9 og þá er svona verið að fylla rútuna. Um 10 síðar kemur vinkonan með miðana og rútan ekki enn farin.
Ég keyri út Lækjargötuna, sný við við gamla iðnskólann og þá hringir síminn. Rúskan í símanum og þar sem hún fyndi ekki debetkortið sitt þyrfti hún eiginlega að fá vegabréfið sitt því hún komist ekki inn á ballið án skilríkja. Nú var mér allri lokið: "Halló, Petra Kristín er ekki alveg í lagi með þig". Jú sko það var verið að bíða eftir annarri rútu og hvort ég væri ekki til í að reyna að ná því að keyra í Kópavoginn ná í vegabréfið og koma með það til hennar. Annars gæti hún ekkert farið. Og múmmsan brunar sem leið liggur heim, hringi í Trínuna á leiðinni og bið hana að vinna helv...passann...en Trínan mín er jafnfundvís og pabbi hennar finnur auðvitað ekki vegabréfið þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar um hvar og í hvaða skúffu passinn væri. Múmmsan orðin verulega pirruð út í afkvæmin, renni í hlað og finn passann og bruna af stað og þegar Rúskan hringir og segir mér að rúta sé eiginlega alveg að fara hvar ég sé stödd er ég akkúrat að renna að Kvennó. Svo eftir tvo og hálfan klukkutíma á endalausri keyrslu nær stelpuruslan að fara á árshátíð Kvennaskólans!!!
Og í síðustu viku tilkynnti mér sama Rúskan að hún væri á leið á Akureyri á einhverja söngkeppni framhaldsskólanna um helgina. Og móðurhjartað vill hugsa vel um ungann sinn, kaupir flugmiða norður á Akureyri fram og til baka, ásamt miða fyrir vinkonu hennar, sem ætlar að redda gistinu. Flugmiði til Akureyrar kostar jafnmikið og flugmiði til Köben, sem ég hefði ekkert á móti að skreppa svona yfir helgi. Þegar ég kem svo með miðana heim í dag kemur í ljós að hún er ekki að fara norður fyrr en um aðra helgi. Halló, hvernig er hægt að lifa það af að eiga þrjú börn á unglingsaldri. Eins gott að hin tvö eru ekki með sama vesenið og Rúskan.
En þrátt fyrir allt þykir mér þykir mér nú ósköp vænt um hana...reyndar frétti ég af því að hún hefði keypt mig á facebook...er ekki enn búin að tékka á því hvað hún borgaði fyrir mig. En Gunnsan á mig víst núna skilst mér, yfirbauð Rúskuna. Skyldi ég þurfa að skutlast með Gunnsuna líka í tvo og hálfan tíma....
Ég er brjáluð akkúrat núna í augnablikinu. Get ekki sofnað af því að ég fékk mér kaffi eftir að ég kom heim úr vinnunni rúmlega 10 í kvöld. Svo loksins þegar ég er alveg að sofna asnast Jánsinn til að hleypa helv....kettinum út. Hún er búin að fara inn og út svona ca. 10 sinnum sl. klukkutíma. Og svo þarf að hleypa henni inn enn eina ferðina og þá hleypur andsk...hundurinn út en kötturinn kemur ekki inn. Svo þegar ég er enn og aftur lögst á koddann vælir kötturinn úti og ég þarf að fara niður og hleypa henni inn. Er ekki alveg í lagi með þetta lið hér á heimilinu. Endalaust vesen um hánætur, fuck...
Dauðöfunda Gunnsuna af því að vera á leið til Spánar á morgun þó ég öfundi hana ekkert af því að hafa fengið uppsagnarbréf fyrir það eitt að vera of öflugur starfsmaður. Kannski þetta gerist á Íslandi í dag ef kona vill fá sæmilega borgað fyrir vinnuna sína. Ég fæ kannski uppsagnarbréf ef ég bið um hærri laun sem mér finnst ég algjörlega eiga skilið. Trúlega meira allt í lagi að borga einhverjum körlum laun fyrir vinnu sem aðrir vinna fyrir þá eins og sumir komast algjörlega upp með. Já, það er í rauninni alveg makalaust hvað lítið hefur þokast í átt að eiginlegu launajafnvægi karla og kvenna í þessu landi í 30 ár eða frá fyrsta kvennafrídegi...og ekki bætir þessi launaleynd sem er ríkjandi í þessu fucking landi ástandið...verð að fara að sofa...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter