<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, desember 22, 2004

Ætlaði nú bara að tékka á póstinum en það vill oft brenna við að ég sitji hér við tölvuna aðeins lengur en það. Litla ömmustelpan mín er sú alsætasta þó að hún líkist pabba sínum! Og Hrundin mín er voðalega góð mamma, sem ég átti nú reyndar von á þar sem hún er besta barnapía sem ég hef haft um daga. Hef reyndar ekki haft þær aðrar en hana. Og Robbi er voðalega stoltur pabbi og ætlar að fara að spara svo litla fjölskyldan flytji einhvern tímann að heiman. (hvenær má eiginlega brjóta þessa reglu...ekki joð á undan i). Ég sagði nú sí svona að ég gæti alveg haft litluna, þau mætti alveg flytja að heima. Ég elska svona lítil og sæt börn. Þau eru bara algjör krútt.
Búin að kaupa allar jólagjafir og pakka þeim inn, nema fyrir Hrund og snúlluna. Snúllan er ekki vandamál en ætli ég endi ekki bara á því að gefa Hrund gjafabréf í eitthverju af mollum bæjarins og hún getur þá kannski keypt sér einhver föt þegar hún jafnar sig eftir meðgönguna.
Klára að versla það sem eftir er fyrir jólamatinn á morgun. Og Tristan ætlar að stjórna því á morgun að hér verði lagað almennilega til og þar með talið að Katrín taki svona einu sinni til í herberginu sínu. Hún er sko ekki að eyða tíma í slíkt en neyðist til þess á morgun með bróður sinn yfir sér. Tristan vill líka að pabbinn drífi í því að setja upp fleiri jólaljós úti, en hann hefur haft lítinn tíma til að sinna því sökum of mikillar vinnu. Hann vinnur allt of mikið þessi elska, en kannski veitir ekki af með allt í einu átta manns í heimili.
Verð að muna eftir því að setja þau fáu jólakort sem ég hef komið mér í að skrifa í póst á morgun svo þau berist fólki fyrir jól. Bara nánast fjölskylda sem fær jólakort þetta árið. Bæti bara úr því næsta ár eins og sá lati segir.
Best að drífa sig í bólið...

sunnudagur, desember 19, 2004

Jæja, þá er ég búin að vera amma í rúman sólarhring. Lítil stúlka fædd 18. desember kl. 01.30, 3965 g og 51 cm. Á sama afmælisdag og Brad Pitt og Christina Aqilera. Petru finnst það voðalega flott. Hrund mín stóð sig eins og hetja í fæðingunni, þó hún væri nú ekki viss um á meðan á þessu stóð að hún gæti þetta. Skyldi engan veginn að ég hefði látið hafa mig í þetta fjórum sinnum. Ýmis fleyg orð sem hún lét falla, eins og hvað þetta væri nú mikið vitleysa allt saman, af hverju hún hefði ekki fæðst sem drengur og varð m.a. hugsað til systra sinna sem þyrfti að ganga í gegnum þessi ósköp. Hafði sjálf búist við af afgreiða þetta eins snöggt og ég, en sá svo að hún væri bara að gera þetta á sinn hátt, hægt og sígandi. Litla snúllan algjörlega yndisleg, róleg og góð. Alveg ótrúlegt að vera viðstödd fæðingu og sjá þetta litla kraftaverk koma í heiminn.
Missti af skötupartýinu en John sigldi í gegnum það með hjálp Hanne og Kristínar. Og þegar ég kom heim af fæðingardeildinni tók á móti mér þessi sérstaki "ilmur" sem fylgir skötunni. Potturinn með skötunni enn á eldavélinni en ég var fljót að skella honum út fyrir. Dísa sofnaði í sófanum. Mér skilst á börnunum mínum að það hafi verið mikið drukkið og mikið talað. Bara eins og skötupartý eiga að vera. Ilmurinn svona rétt að dofna. Verð trúlega að sjóða hangikét eða baka piparkökur til að ná lyktinni burtu.
Ætla í síðasta jólagjafaleiðangurinn á morgun og versla í jólamatinn. Svo er þetta allt að smella, búin að gera allt sem ég ætlaði að gera, sem var lítið sem ekkert og stærsta jólagjöfin komin í hús...

fimmtudagur, desember 16, 2004

Tónleikahrinan að baki og ég er sæl í hjarta. Það rann upp fyrir mér þegar ég var komin í rúmið í morgunsárið hvað ég er umkringt af skemmtilegum og umfram allt góðum konum. Ég bara vissi ekki að það væri svona mikið til af blátt áfram yndislegum konum í þessu landi. Held að minn heittelskaði ektamaður hafi rétt fyrir sér með það, að ef við mundum flytja til USA mundi ég veslast upp og deyja af því ég hefði ekki allt þetta góða fólk í kringum mig sem ég þekki. Hjarta mitt verður meirt þegar ég hugsa til allra þeirra sem knúsa mig og faðma við öll möguleg tækifæri. Ég segi bara eins og Jón Kr. sagði um árið: "Takk, takk fyrir, góða fólk!"
Og loksins er eitthvað að gerast í því að koma barnabarninu í heiminn. Hrund á að mæta upp á Landsa kl. 21 í kvöld og fær stikkpillu til að koma þessu af stað. Svo kannski reynist ég sannspá um þann 17. des. Svo nú verð ég að leggjast í tiltekt því það á að vera skötupartý hér annað kvöld og ef ég verð megnið af morgundeginum á fæðingardeildinni er eins gott að vera búin að öllu. Það getur nú hver sem er sett skötuna í pott og soðið nokkrar kartöflur ef barnið verður ekki komið fyrir skötuveisluna. Svo mæti ég bara í fjörið...

miðvikudagur, desember 15, 2004

Jæja, þá eru síðust tónleikarnir í kvöld af þessari tónleikahrinu. Léttutónleikar tókust ágætlega í gær eða þannig. Sammála Ingibjörgu að mér leiðist þetta gól þegar við hneigjum okkur. Tek ekki þátt í því. Og en bólar ekkert á stuttunni en hún kemur ábyggilega á föstudaginn þann 17. eins og ég hef alltaf sagt. Hér á reyndar að vera skötupartý á föstudaginn en hún gerir þetta bara aðfaranótt þess dags.
Druslaðist til að skúra baðið og eldhúsið og ekki vanþörf á og hreinsa aðeins af borðstofuborðinu sem var fullt af alls konar jóladótaríi og öðru drasli. Er algjörlega andlaus og engan vegin þessa dagana og sef ef lítið. Hélt að ég þyrfti að tjá mig heil ósköp en nei, þarf þess eiginlega ekki...

laugardagur, desember 11, 2004

Já, þessir dívutónleikar í gær tókust alveg glimrandi vel. Ógislega gaman og við Léttur stóðum okkur rosalega vel. Er ekki alveg búin að ná mér niður ennþá eftir þessa tónleika. Ég var nú reyndar orðin svoldið lúin í löppunum að standa svona, nánast frá tvo til tíu en að orðu leyti glöð í sinninu.
Slaufaði kóræfingu í morgun hjá gospelnum. Tónleikar framundan á mánudag, þriðjudag og miðvikudag og það mun allt ganga vel er ég viss um.
Og nú þarf ég að draga hana dóttur mína í göngutúr svo þetta blessaða barnabarn mitt fari að koma í heiminn. Þarf að koma jólapökkum sem eiga að fara til Bandaríkjanna til tengdó sem fer út á morgun og koma danmerkurpökkum í póst. Og eftir 15. verður hægt að fara að undirbúa jólin, reyndar á að vera skötupartý hér 17. des. en það er nú lítið fyrir því haft. Skrifa meira síðar...er að fara í jólahlaðborð í Keflavík í kvöld...

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ég er ekki alveg að meika sjálfa mig þessa dagana. Er alveg óheyrilega syfjuð en get ekki sofnað. Komið með bláa bauga undir augun af svefnleysi eða svefni á vitlausum tíma. Geri lítið annað en að mæta á kóræfingar og bíða eftir að barnabarnið komi í heiminn. Hún er greinilega ekkert að flýta sér snúllan sú og Hrundin mín orðin svoldið þreytt á biðinni. Hef svo sem ekkert að segja og ætla að gera eina tilraun en til að sofna...

föstudagur, desember 03, 2004

Allir dagar fráteknir fram í miðjan desember. Mikið tónleikafargan framundan og kóræfingar og ég þarf að taka mig á í að læra öll þessi ósköp. Litla snótin er nú formlega farin að láta bíða eftir sér. Átti samkvæmt öllum mælingum að koma í heiminn í gær en ég átti nú svo sem von á að sú stutta léti nú eitthvað bíða eftir sér. Við veðjum hér á 12.12. það er svo smart. Hrund er lögst í súkkulaðiát ásamt gulrótunum og svo fylgir yfirleitt fast í kjölfarið slatti af hrísmjólk. Undarlegt hvað ófrískum konum (fatta ekki alveg þetta ó fyrir framan allt sem fylgir meðgöngu en ófrísk er skárra en ólétt og en verra er vanfær. Hver skyldi hafa fundið upp öll þessi óorð) dettur í hug að borða. Einu sinni vann ég með konu sem langaði endalaust í stropuð egg og hún átti sex börn. Ég át sítrónur í massavís í ýmsu formi og ég man að ég borðaði einmit mikið af hrísmjólk þegar ég gekk með Tristan. Svo lenti ég á dollu sem var súr og síðan get ég varla sat að ég hafi borðað hrísmjólk.
Fór í klippingu í gær og var ekki alveg að meika þennan lit sem Jóa setti í mig, eitthvað svo músarlegt svo hún bætti í mig fleiri strípum og ég á eftir að þvo þetta úr og sjá hvort þetta skánar eitthvað....úbbs það er víst kominn tími á það...átti víst bara að vera í 20 mínútur. Er á leið í matarboð til Melgerðinga og þar þarf að mæta tímanlega í sexarann...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter